26.4.2013 | 12:15
Rétt, en rangar forsendur.
Forsendurnar eru rangar að mínu mati. Lenging flutningstíma um 30 mín. er ekki ásættanleg. Því myndi ég ekki láta sjúkraflugvélarnar lenda í Keflavík, heldur koma upp flugvöllum (eða nýta núverandi) norðan og austan við borgina. Þeir yrðu ekki ný miðstöð innanlandsflugs heldur notaðir í neyðartilfellum eins og sumt sjúkraflug getur verið. Þegar mikið lægi við ennþá, eftir 2,5-3 tíma flutningstíma sjúklingsins, þá yrði sjúklingurinn fluttur síðustu kílómetrana með þyrlu. Þessi aðferð myndi ekki lengja flutningstíma sjúklinganna marktækt, ekki nema ómögulegt reyndist að finna landsvæði innan 25 km radíuss. (6 mín í þyrlu) Mögulega má færa rök fyrir að 50 km séu lagi. Ástæðan er 1. að flugvélin þarf líka að fljúga þessa vegalengd 2. Þyrlan lendir við sjúkrahúsdyrnar, ekki flugvélin. Nokkir flugvellir eru nú þegar í nágrenni Reykjavíkur, sem mætti bæta alla svo að þeir gætu í sameiningu virkað í öllum veðrum. Næstu flugvellir við Rvk eru Sandskeið og Tungubakkaflugvöllur. Í lagi gæti líka verið að lenda á Selfossi (12 mín með þyrlu+ 0 mín sjúkrabíll, ca. 6 mín með flugvél + 2-3 mín sjúkrabíll).
Ég hef ekki lesið eða heyrt góð rök sem myndu útiloka þetta, heyrt nokkur rök sem mér finnst ekki sérlega sterk. Það er mikð notaður þyrlupallur á þakinu á sjúkrahúsinu sem ég vinn núna á í Stokkhólmi. Það er alltaf hægt að ímynda sér einhverjar veðurhamfarir eða bilanir sem hindra flutning sjúklinga sama hvaða aðferð er notuð.
Ég hef flutt nokkra sjúklinga með sjúkrafluginu á Íslandi, eins og yfirlæknirinn bendir á er flutningstíminn umtalsvert langur eins og hann er núna, og ef þessi aðferð yrði notuð væri ekki breyting á tímalengd flutnings neitt sérstakt áhyggjuefni.
Það þarf líka að taka með í reikninginn að það eru einnig meiri líkur á að lifa af vissa áverka og veikindi ef maður býr í 2 mín. akstursfjarlægð frá sjúkrahúsinu heldur en í 10-15 mín. fjarlægð . Hverfi í Vatnsmýrinni yrði á þennan hátt mun nær Landspítalanum heldur en þau hverfi sem hafa risið síðustu árin á höfuðborgarsvæðinu.
Staðsetning flugvallar spurning um líf eða dauða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Þorgeir Gestsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þorgeir hvað áttu mikið af þyrlum. Landhelgisgæslan á bara eina í lagi núna. Var síðast upptekin við að fljúga með steipu í masturssökkla fyrir símafyrirtæki.Það er ekkert á þyrluflug treystandi hér nú og verður seint. Þrjú fjögurhundruð milljónir ein þyrla plús mannskapur á vakt allan sólarhringinn árið um kring. Láttu mig sjá það gerast.
Að hafa flugvöllinn þar sem hann er er öruggasta leiðin til að koma sjúklingum fljótt og vel á áfangastað. þetta er ein dýrmætasdta eign okkar allra landsmanna að hafa flugvöllinn þar sem hann er. Heilablóðfallssjúkling þarf að greina innan 3 klukkutíma frá áfalli . hvort um blæðingu eða tappa er að ræða. Ef um tappa er að ræða er hægt að gefa lyf sem leysa upp tappann eða með þræðingu að tvístra honum og sjúga upp. Ef um blæðingu er að ræða þarf aðgerð. Þetta þarf að gera áður en heilavefurinn tekur að drepast úr súrefnisskorti og þar eru tímamörkin þrír klukkutímar. Ef Pentagonspítalinn verður byggður væri í lófa lagið að hafa innangengt af flugvellinum.
K.H.S., 26.4.2013 kl. 13:41
Er einhver flugvöllur í boði sem er jafn mikið opinn og reykjavíkurflugvöllur?
Og er líklegt að lagt verði í kostnað við að halda opnum innanlandsflugvelli og sjúkraflugvelli allt árið um kring með mannskap og tæki á vakt allan sólarhringinn?
Meiri byggð í vatnsmýrinn myndi líka þýða meiri umferð og því hægari sjúkraflutninga innan reykjavíkur að sjúkrahúsinu.
Þorsteinn (IP-tala skráð) 26.4.2013 kl. 14:18
K.H.S: Við erum nú þegar með mannskap á þyrluvakt allan sólarhringinn. Fyrst það er ekki treystandi á þyrluflug, þá viltu væntanlega selja þær þyrlur sem við eigum og hætta að leigja hinar, eða hvað? Við erum líka með mannskap á vakt allan sólarhringinn á sjúkrabílum víðs vegar um landið. Þetta væri væntanlega eitthvað dýrara en það þyrfti ekki að klára flutninginn með þyrlunni í öllum tilfellum.
Þú tekur dæmi um heilablóðfallssjúklinga sem sjúklingahóp sem gæti þurft að komast hratt á sjúkrahúsið, þetta er ekki sá hópur sem ég hefði haft í huga, (Landspítalinn býður ekki upp á betri bráðameðferð en fjórðungssjukrahúsin hvað varðar blóðtappana) en það gildir einu, það eru sjúklingahópar sem tíminn gæti skipt máli, þrátt fyrir að heildarflutningstíminn sé hvort eð er langur. Það var tilgangurinn með minni athugasemd, að það er hægt að halda áfram að flytja alla á sama hraða og áður, fyrir þá sem þurfa. Ýmsar aðrar leiðir eru til að bæta horfur veiks fólks úti á landi, sem enginn hefur spáð í, þótt það kosti nú ekki mikið.
Þorgeir Gestsson, 26.4.2013 kl. 14:54
Flest sjúkraflug á landinu fara EKKI fram með þyrlu. 2 ástæður, kannski 3.
1: Þyrlurnar eru margfalt dýrari.
2: Flugvélar eru staðsettar úti á landim a.m.k. á Akureyri
3: Sjúkraflugvél mýflugs er hraðfleygari en þyrlan.Bara þeir aðilar fara 400-500 "ambulance" flug á ári.
Þetta ásamt 5 mín frá Reykjavíkurflugvelli beint í bráðamóttöku ætti að segja eitthvað. Og fyrir verð einnar þyrlu væri hægt að hafa MARGAR flugvélar víðs vegar um land.
Jón Logi (IP-tala skráð) 26.4.2013 kl. 15:39
Þorsteinn: Þetta yrði ekkert öðruvísi en með aðra flugvelli úti á landi sem eru opnaðir þegar þörf krefur, einhvers staðar frá koma sjúklingarnir ekki satt?
Jón Logi: 1. Ekki að segja að það eigi að kaupa nýjar þyrlur. 2 Ekki að tala um að hætta að nota flugvélarnar, bara fljúga 10-40 km styttra. 3. Lestu mína athugasemd, já flugvél flýgur hraðar en þyrla. Ef það eru 5 mín frá Reykjavíkurflugvelli þá er það tími sem sparast líka með þyrlu, hún myndi lenda á þakinu/ eða við hlið sjúkrahússins.
Þorgeir Gestsson, 26.4.2013 kl. 16:23
Flugvellir úti á landi eru ekkert "opnaðir þegar þörf krefur", þeir eru annað hvort opnir eða ekki. Til þjónustu reiðubúnir ef veður og brautir leyfa. Eina "opnunin" snýst um mokstur á braut.
Varðandi #1:
Þú gerir þér væntanlega grein fyrir því að þyrlur eyða margföldum tíma í "slipp" m.v. flugvélar.
2# Styttra? m.v. hvað?
3# Út í hvað ertu þarna að fara? Þyrlu alla leið, eða þyrlu frá fjarlægari flugvelli. Annars má þess geta að Flugvé lMýflugs hefur ca. tvöfaldan hraða á cruising til móts við max á þyrlunni. Þyrlan, - sem kostar kannski á við heila flugsveit af hraðskreiðari sjúkraflugvélum.
Svo kostar þyrlan hvort eð er sömu umskipun og flugvélin.
Jón Logi (IP-tala skráð) 26.4.2013 kl. 22:35
Jón Logi: Ok, en er enginn á staðnum til að staðfesta fyrirfram að það sé hægt að lenda á vellinum? T.d. um nótt, óljóst hvað hefur snjóað mikið um nóttina o.s.frv.? Mér finnst ekki sérlega tryggt kerfi að flugmaðurinn eigi að meta fyrst möguleikana á að lenda þegar sjúkrabíllinn er kominn á staðinn með veikan sjúkling. Um suma vellina gildir t.d. að hafa þurfi samband fyrirfram ef það er utan dagvinnutíma og ætlunin er t.d. að taka bensín á vellinum, þ.a. það er einhver vallarstjórn fyrir hendi oftast.
Slipp; hafði ekki spáð sérstaklega í það, enda er búið að ákveða þrátt fyrir það við ætlum alltaf að hafa þyrlur tiltækar allan sólarhringinn.
Styttra. Það er inntakið í þessu að það væri ókostur að bæta við sjálfan flugtímann nokkrar mínútur með því að fljúga til Kef. og keyra síðan tilbaka. Þetta er augljóslega hægvirkari aðferð en núverandi. Væri því hagstæðara, ef Vatnsmýrarvöllur væri lokaður að fljúga styttra, heldur en lengra, þ.e. framhjá borginni.
3. Nei, ekki þyrlu alla leið, hún flýgur hægar en flugvél. Já þyrlu síðustu kílómetrana, út af því að sá tími sem tapast í nokkuð hægari flughraða, bætist upp út af því að á Rvk velli þarf að skipta yfir í sjúkrabíl, sem tekur örfáar mínútur að koma sér yfir á sjúkrahúsið. (Þyrlan hefur sem cruise hraða ca. 250 km/klst. sem þýðir 12 mín frá t.d. Selfossflugvelli)
Varðandi umskipun: Það þarf ekki að flytja sjúklinginn úr þyrlunni í sjúkrabíl síðasta legginn, eins og þarf að gera með með flugvélatransport. Þyrlan staðnæmist svo að segja jafnnálægt sjúkrahúsinu og sjúkrabíll.
Þér er kostnaður við þyrlurnar hugleikinn, sem er gott, en þetta sem ég er að leggja til bætir ekki neinum áberandi kostnaði við, sem er ekki þegar búið að leggja út í. Það þarf kannski ekki heldur alveg þyrlu í Super Puma klassanum fyrir svona stutt hopp.
Það eru til vellir núna i grennd Reykjavíkur sem þarf sennilega ekki setja neinn kostnað í uppfærslu til að geta tekið á móti vél Mýflugs. Tungubakkavöllur í Mosó er þó ekki nógu langur, og ég veit ekki hvort tæknilega/umhverfislega er hægt að lengja hann, en hann og Sandskeið eru mjög stutt frá LSH, jafnvel þótt maður sé ekki að tala um þyrlu þaðan, heldur sjúkrabíl í forgangsakstri, sem myndi sennilega oftast nægja. 400 sjúklingaflutningar á ári þýðir ekki að allir séu hýperakút, og ekki heldur að þeir myndu dæmast hýperakút ennþá eftir að búið er að fylgjast með sjúklingnum meðan beðið er eftir sjúkraflugvélinni í heimahéraði. En möguleikinn þarf að vera fyrir hendi að geta beðið um þyrlutransport síðasta spölinn, sérstaklega ef lent væri á Selfossi eða svipaðri fjarlægð.
Þorgeir Gestsson, 27.4.2013 kl. 07:00
Þetta er áhugaverð umræða. Það eru ekki allir sjúklingar sem búa á Akureyri eða í grennd við opinn flugvöll á landsbyggðinni. Þótt ótrúlegt sé þá býr fólk á öðrum stöðum líka.
Ég fæ ekki séð að einhverjar mínútur skipta öllu máli þegar um venjulegt sjúkraflug er að ræða. Flest alvarleg bráðatilfelli notast við þyrlur (s.s. slys). Áður en flugvél eða þyrla er yfirleitt ræst af stað þá þarf einhver læknir eða álíka starfsmaður að vera búinn að staðfesta að þörf er á slíku. Í sumum tilfellum eru þegar nokkrir klukkutímar liðnir frá því upphaflega var óskað eftir aðstoð (fer eftir staðsetningu og færð). Rökin fyrir því að flugvöllurinn þurfi að vera upp við sjúkrahúsið er svona álíka og allir þurfa að búa í 10 mínútna fjarlægð frá því - ef þeir skyldu veikjast eða slasast.
Nær væri að efla þjónustu sjúkrahúsa og stytta biðtíma þar - líka á höfuðborgarsvæðinu. Nýlega var dæmi um fárveikan mann sem var ekki hleypt inná sjúkrahúsið í Keflavík fyrr en hann var búinn að fá grænt ljós hjá 112. Svo er líka furðulegt að senda fólk sem vantar bara heimilislæknir á slysamóttöku sjúkrahúsa. Það sem ég er að benda á er að það er svo mikið sem þarf að laga sem skiptir mun meira máli en Reykjavíkurflugvöllur, eins og Þorgeir er að benda á.
Sumarliði Einar Daðason, 29.4.2013 kl. 10:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.